HD Dagurinn fór fram þann 10. apríl við góðar undirtektir. Þátttakendur komu víða að og úr öllum þeim geirum sem HD þjónustar. Viðburðurinn einkenndist af jákvæðum anda og var vettvangur fyrir gefandi samtöl milli gesta, sérfræðinga og birgja.
Á dagskrá voru fjölbreytt og fræðandi erindi ásamt kynningum á nýjustu tæknilausnum.
Árni Rafn Gíslason, forstjóri HD, kynnti félagið sem þjónustuaðila með öfluga og sérhæfða iðn- og tækniþjónustu byggða á reynslu og þekkingu.
Lýður Skúlason, sviðsstjóri orku- og umhverfisiðnaðar, lagði áherslu á sérhæfingu HD í þjónustu við orkuiðnaðinn sem lykilatriði í að lágmarka niðritíma og stuðla þannig að rekstraröryggi orkumannvirkja. Hann benti jafnframt á að HD sé eina fyrirtækið á Íslandi með sérhæfða aðstöðu til viðgerða á rótórum fyrir jarðvarmavirkjanir.
Þorleifur Halldórsson, verkstjóri skipaviðgerða, kynnti hvernig HD þjónustar innlend og erlend útgerðarfyrirtæki með viðhaldi og viðgerðum á lykilbúnaði, þar sem sérfræðiþekking, skjót viðbrögð og gott skipulag ráða úrslitum. Sama hversu krefjandi verkefni eða þröngir tímarammar eru – viðhorfið innan HD er skýrt:
„Þetta er ekkert mál – bara vinna.“
Óttar Freyr Einarsson, sérfræðingur í skaðlausum prófunum, gaf innsýn í notkun gervigreindar og kosti fyrirbyggjandi ástandsskoðana – tækni sem styrkir rekstraröryggi og gerir fyrirtækjum kleift að bregðast við áður en bilanir koma fram.
Sunna Björk Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku, greindi að lokum frá góðu samstarfi við HD við stækkun Reykjanesvirkjunar – tæknilega krefjandi verkefni sem kallaði á náið samspil og útsjónarsemi. Hún lagði áherslu á mikilvægi uppitíma í rekstri orkuvera, þar sem óvænt stöðvun vélar getur kostað margar milljónir króna á dag.
Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í HD deginum fyrir ánægjulega samveru og gagnlegar umræður – og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við íslenskt atvinnulíf.
Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs og þess að vera áfram traustur samstarfsaðili fyrir íslenskt atvinnulíf.
