Vikan 31. mars til 4. apríl 2025 var tileinkuð öryggismálum hjá HD undir yfirskriftinni „Öryggismál og vinnuumhverfi”. Öryggisvikan fékk góðar undirtektir hjá starfsfólki, sem einnig tók virkan þátt í dagskránni.
Öryggismál skipta miklu máli í iðnfyrirtækjum þar sem starfsmenn vinna með vélar, tæki og efni sem krefjast sérstakrar varúðar. HD leggur ríka áherslu á að vinnustaðurinn sé öruggur og að allir starfsmenn komi heilir heim í lok dags.
Í öryggisvikunni var fjallað bæði um líkamlegt og félagslegt öryggi og var hver dagur tileinkaður ákveðnu öryggisþema. Vikan hófst með góðri samverustund og köku á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Stjórnendur funduðu með starfsfólki sínu og ræddu viðkomandi þema nánar. Auk þess var ítarefni birt á upplýsingaskjám á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins og á innri vef starfsmanna.
Við gerum okkur grein fyrir því að besta forvörnin gegn slysum og vanlíðan erum við sjálf. Með því að setja öryggi í fyrsta sæti, nota nauðsynlegan hlífðarbúnað og sýna samstarfsfólki okkar virðingu stuðlum við að öruggara vinnuumhverfi. Öryggi er eitt af megingildum HD ásamt heiðarleika, þjónustulund og fagmennsku.
Öryggisvitund er hluti af daglegu starfi og menningu fyrirtækisins og því markmið HD að allar vikur séu öryggisvikur.
