Tímamótaverkefni fyrir ON lokið

HD hefur nú lokið við eitt stærsta og flóknasta viðhaldsverkefni sem unnið hefur verið á jarðvarmahverfilsamstæðu hér á landi fyrir Orku náttúrunnar (ON). Verkefnið styrkir verulega rekstraröryggi og afköst búnaðarins og markar tímamót í getu íslensks iðnaðar til að sinna viðhaldi á jarðvarmavirkjunum.

Til að skilja umfang verksins er gagnlegt að átta sig á hvernig jarðvarmahverfilsamstæða starfar. Hverfilsamstæða samanstendur af tveimur meginhlutum: hverfli og rafala. Heit gufa úr jarðhitasvæðum er beint inn á hverfil þar sem hún streymir yfir snúningsás með sérhönnuðum blöðum. Gufan fer á blöðin, sem setur hverfilásinn í snúning og umbreytir þannig varmaorku í hreyfiorku. Hreyfiorkan frá snúningnum færist yfir í rafala sem er tengdur sama öxli og breytir henni í rafmagn. Þetta er hjarta orkuframleiðslunnar og áreiðanleiki kerfisins byggir á nákvæmni og jafnvægi þessara lykilhluta.

Tæknivinnan í einföldu máli

Viðhaldsverkefnið fólst í heildarendurgerð á rótornum, sem er snúningsás hverfilsins, með viðamiklum viðgerðum. Tvö þrep rótorsins, sem höfðu orðið fyrir mestum skemmdum, voru soðin upp og enduruppbyggð. Ný blöð voru smíðuð og sett í með mikilli nákvæmni, þar sem þess gerðist þörf.
Rafalaankerið, sem framleiðir rafmagnið sjálft með snúningi sínum í rafalnum, var vafið upp á nýtt. Þá voru gerðar verulegar viðgerðir á burðarvirki hverfilsins – stoðkerfinu sem heldur þessum þunga búnaði stöðugum og öruggum í gangi. Að lokum fór fram heildarupptekt á allri vélasamstæðunni.

„Við sjáum fram á að þessar endurbætur muni lengja líftíma búnaðarins verulega, bæta nýtni og styrkja öryggi orkuframleiðslunnar,“ segir Lýður Skúlason, framkvæmdastjóri orku og umhverfissviðs HD.

Nútímastýring og tímamótaaðgerð

Samhliða vélaviðgerðunum var einnig farið í heildaruppfærslu á tölvubúnaði og skynjurum sem stýra öllum helstu þáttum hverfilsamstæðunnar eins og hraða, þrýstingi og hitastigi.

Að lokum var gerð nákvæm jafnvægisstilling á öllum búnaði undir fullu álagi, þ.e. búnaðurinn keyrður á hámarksgetu og fínstilltur til að tryggja að ekkert ójafnvægi valdi titringi eða slit. Þetta er í fyrsta sinn sem slík heildarjafnvægisstilling hefur verið framkvæmd hér á landi af íslenskum framkvæmdaraðilum og markar því tímamót.

„Verkefnið staðfestir hversu langt íslenskur iðnaður er þegar kominn í sinni þekkingu og sérhæfingu á sviði viðhalds og þjónustu við jarðvarmavirkjanir,“ segir Birna Björnsdóttir, forstöðumaður orkuframleiðslu hjá Orku náttúrunnar. „Það er mikilvægt að byggja upp innlenda viðhalds og viðbragðsgetu til að tryggja rekstraröryggi orkuinnviða. Sjálfbært viðhald er ekki bara kostur heldur lykilþáttur í traustum og öruggum rekstri.“

HD þakkar Orku náttúrunnar fyrir traust og gott samstarf í þessu krefjandi en mikilvæga verkefni sem styrkir bæði sjálfbærni og orkuöryggi landsins með innlendri þekkingu og lausnum.

Verkefnið er eitt það stærsta og flóknasta sem unnið hefur verið hér á landi í viðhaldi á jarðvarma-hverfilsamstæðu
Umfangsmikil viðgerð á túrbúnurótor
Endurvafning á rafala-ankeri

What are you looking for?

HD notar vefkökur m.a. til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.