HD óskar HS Orku innilega til hamingju með formlega gangsetningu sjöunda orkuversins í Svartsengi, sem fram fór við hátíðlega athöfn í vikunni. Nýja vélasamstæðan er 55 MW gufuhverfill og sá stærsti sinnar tegundar á Íslandi. Þetta krefjandi og tæknilega umfangsmikla verkefni markar stórt skref í áframhaldandi uppbyggingu og sjálfbærri nýtingu jarðhita á Reykjanesi.
Fyrsta skóflustunga að stækkuninni var tekin í lok árs 2022 og stóðust allar verk- og tímaáætlanir þrátt fyrir fordæmalausar áskoranir á framkvæmdatíma, meðal annars jarðhræringar, gasmengun og níu eldgos á Sundhnúksgígaröðinni. Þessi árangur byggir á fagmennsku og sterku samstarfi allra aðila sem komu að verkefninu.
HD sá um uppsetningu vélbúnaðar
HD var einn af þremur aðalverktökum ásamt Ístaki og Rafal. Hlutverk HD fólst í uppsetningu vélbúnaðar á nýju vélasamstæðunni, verkefni sem kallaði á sérfræðiþekkingu, nákvæmni og öflugt teymisstarf. Við erum stolt af því að hafa lagt okkar af mörkum við þessa stóru framfarir í orkuvinnslu á svæðinu.
„Verkefnið í Svartsengi er einstakt að umfangi og eðli, og það hefur farið fram af mikilli fagmennsku þrátt fyrir áskoranir náttúruaflanna. Ég er afar stoltur af sérþekkingu og fagmennsku HD-teymisins sem hefur sýnt fram á áreiðanleika, lausnamiðaða nálgun og djúpan skilning á krefjandi tæknilausnum. Það hefur verið heiður að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni í samstarfi við HS Orku og aðra verktaka,“ segir Árni Rafn Gíslason, forstjóri HD .
Mikilvægur áfangi fyrir sjálfbæra orkuuppbyggingu
Stækkunin felur einnig í sér endurbætur á eldri búnaði og er liður í langtímastefnu HS Orku um örugga og sjálfbæra nýtingu jarðhitaauðlindarinnar. Mat Skipulagsstofnunar gerir ráð fyrir mögulegri frekari stækkun upp í allt að 85 MW, að tryggðri sjálfbærni auðlindarinnar.
Við óskum HS Orku og öllum sem að verkefninu komu innilega til hamingju með þennan merka áfanga og hlökkum til áframhaldandi samstarfs í framtíðinni.
„Ég er afar stoltur af sérþekkingu HD-teymisins og frábæru samstarfi í þessu einstaka verkefni,“ segir Árni Rafn Gíslason, forstjóri HD.