Sjávarútvegur 2025: Gervigreind og heildstætt þjónustuframboð

HD verður með bás á sýningunni Sjávarútvegur 2025 í Laugardalshöll dagana 10.–12. september. Þar kynnum við heildstætt þjónustuframboð okkar og nýjungar í notkun gervigreindar í fyrirbyggjandi viðhaldi.

Á sýningunni  kynnir HD fjölbreytta þjónustu sína fyrir útgerð og iðnað – sem spannar allt ferlið frá þarfagreiningu til smíði eða innkaupa á búnaði, uppsetningar og reglulegs viðhalds. Einnig verður sýnt hvernig fyrirtækið styður útgerðir með bæði reglubundnu viðhaldi skipa og sérhæfðum verkefnum tengdum breytingum og bilunum. Með heildstæðu þjónustuframboði þurfa viðskiptavinir ekki að leita á marga staði – HD sér um verkefnið frá upphafi til enda og finnur réttu lausnina, hver sem áskorunin er.

Einnig verða kynntar nýjungar í notkun gervigreindar í fyrirbyggjandi viðhaldi á vélbúnaði. Gervigreindin lærir á viðkomandi tæki, býr til grunnlínu, greinir frávik og lætur vita ef þau eru nægilega greinileg. Á sýningarbásnum verður hermir sem líkir eftir bilun í vélbúnaði, skynjarar nema hreyfingar þannig að hægt verður að sjá í rauntíma hvernig hugbúnaðurinn greinir breytingar.

Með hlutfallslega litlum tilkostnaði er þannig hægt að greina mögulegar bilanir tímanlega, draga úr líkum á óvæntum stöðvunum og minnka kostnað. Jafnframt má koma í veg fyrir óþarfa viðhald, t.d. með því að fresta tímastýrðu viðhaldi ef mælitæki sýna óbreytt ástand. Útkoman er markvissara viðhald, færri rekstrartruflanir og betri nýting fjármuna.

HD hefur þjónustað íslenskan sjávarútveg í áratugi og er í dag meðal stærstu og reynslumestu þjónustuaðila á sínu sviði á Íslandi. Fyrirtækið á rætur sínar að rekja til Hamars ehf., en eftir sameiningu við fleiri sérhæfð fyrirtæki hefur það þróast í öflugan þjónustuaðila sem fylgist grannt með þróun í greininni og aðlagar sig stöðugt að nýjustu tækninýjungum og þörfum viðskiptavina.

„Við lítum á okkur sem samstarfsaðila útgerða, ekki aðeins þjónustuaðila. Það þýðir að við stöndum með viðskiptavinum okkar, leitum alltaf bestu lausnanna og leggjum okkur fram um að tryggja að rekstur þeirra haldist stöðugur og öruggur,“ segir Þorleifur Halldórsson, verkefnastjóri á útgerðarsviði HD. 

Á sýningunni verðum við með sýningartilboð á dælum og mótorum sem henta sérstaklega vel fyrir sjávarútveg. Við bjóðum gamla sem nýja viðskiptavini hjartanlega velkomna á básinn okkar í Laugardalshöll. Happy Hour verður kl. 16 á miðvikudag og fimmtudag.

„Við lítum á okkur sem samstarfsaðila útgerða, ekki aðeins þjónustuaðila“
Þorleifur Halldórsson, verkefnastjóri á útgerðarsviði
Skynjarar vakta ástandið í rauntíma
Þorleifur Halldórsson, verkefnastjóri á útgerðarsviði

Að hverju ertu að leita?

HD notar vefkökur m.a. til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.