HD miðlar jarðhitaþekkingu í alþjóðlegu samstarfi

Lýður Skúlason, sviðsstjóri orku- og umhverfissviðs HD, tók nýverið þátt í jarðhitaskóla GRÓ sem leiðbeinandi í níunda sinn. Námskeiðið er hluti af GRÓ Geothermal Training Programme, sem hefur það að markmiði að efla getu sérfræðinga í þróunarlöndum á sviði jarðhita með fræðslu, rannsóknum og vettvangsnámi á Íslandi.

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfar undir merkjum UNESCO og rekur fjórar þjálfunaráætlanir á sviðum þar sem Ísland hefur sérþekkingu: jarðhita, jafnrétti, landgræðslu og sjávarútvegi. Jarðhitaskólinn, stofnaður 1979, er elsta áætlunin og hafa yfir 1.500 sérfræðingar frá 100 löndum lokið námi þar.

„Það er alltaf heiður að fá að leiðbeina í jarðhitaskóla GRÓ. Þetta er níunda árið sem ég tek þátt sem leiðbeinandi og er námskeiðið mitt tileinkað prófunum, hönnun og vali á djúpdælum fyrir jarðvarmavinnslu,“ segir Lýður.

Námskeiðið samanstendur af bæði bóklegri og verklegri kennslu. Í seinni hlutanum heimsótti hópurinn Hitaveitu Seltjarnarness þar sem Arnar Óli Einarsson, hitaveitustjóri, tók á móti þátttakendum og kynnti hvernig djúpdælur eru nýttar í daglegum rekstri kerfisins. „Þessi stöð hentar einstaklega vel til kennslu og veitir frábært yfirlit yfir virkni djúpdæla í hitaveitukerfi bæjarfélagsins,“ bætti Lýður við.

Þátttakendur í ár komu meðal annars frá Kenía, Tansaníu, Malaví, Bólivíu, Bútan, Kómoreyjum og Dóminíku. „Það er mikill innblástur að hitta svona áhugasama og fjölbreyttan hóp fólks sem vinnur að sjálfbærri orkunýtingu um allan heim.“

Þátttaka HD í jarðhitaskóla GRÓ er liður í að styrkja alþjóðlegt samstarf og ásýnd fyrirtækisins, ásamt því að efla faglega getu og tengsl við sérfræðinga og samstarfsaðila á sviði jarðhita um allan heim. HD er stolt af samstarfinu við GRÓ og framlagi Lýðs, sem endurspeglar þá djúpu þekkingu og víðtæku reynslu sem byggst hefur upp innan fyrirtækisins.

Lýður Skúlason, sviðsstjóri orku- og umhverfissviðs HD, leiðbeinandi í jarðhitaskóla GRÓ

Að hverju ertu að leita?

HD notar vefkökur m.a. til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.