HD ehf. og ÍSOR hafa undirritað samning við DGDC Ltd. (Dominica Geothermal Development Company Ltd.) um eftirlit með gangsetningu og rekstri 10 MW gufuaflsvirkjunar á Dóminíka í Karíbahafi. Samningurinn tekur jafnframt til samantektar og úrvinnslu gagna um viðbrögð jarðhitakerfisins við vinnslu, sem rekstraraðila virkjunarinnar ber að skila eiganda jarðhitaauðlindarinnar.
Samvinna HD ehf. og ÍSOR felst í skýrri verkaskiptingu þar sem HD ehf. leggur til sérfræðinga á sviði gangsetningar, reksturs og viðhalds jarðhitavirkjana og ber ábyrgð á þeim þáttum sem snúa að tæknilegum rekstri virkjunarinnar og eftirfylgni með rekstri hennar. ÍSOR annast þá þætti sem lúta að gerð og eðli jarðhitakerfisins, efna- og forðafræðilegum eiginleikum þess, auk mats á viðbrögðum kerfisins við vinnslu.
Gufuaflsvirkjunin á Dóminíku
ÍSOR hefur komið að jarðhitarannsóknum á Dóminíku og veitt DGDC Ltd. og stjórnvöldum landsins ráðgjöf allt frá árinu 2010. DGDC Ltd. starfar í umboði stjórnvalda Dóminíku, fer með umsjón jarðhitaborhola á virkjunarsvæðinu og er eigandi jarðhitaauðlindarinnar og gufuaflsvirkjunarinnar, með það að markmiði að tryggja sjálfbæra og hagkvæma raforkuframleiðslu til framtíðar. Verkefnið hefur meðal annars falið í sér rannsóknir, borun og úrvinnslu gagna úr sjö jarðhitaholum, þar af eru þrjár nýttar sem vinnsluholur og ein sem niðurrennslihola.
Gufuaflsvirkjunin hefur uppsett afl upp á 10 MW og mun raforkuframleiðsla hennar leysa af hólmi núverandi raforkuframleiðslu sem að mestu byggir á díeselolíu. Verkefnið felur því í sér umtalsverða breytingu til hins betra í kolefnisbókhaldi Dóminíku, sem telur um 70.000 íbúa, og er mikilvægt skref í átt að sjálfbærari og umhverfisvænni orkuframleiðslu á eyjunni.
Sérþekking HD nýtist í verkefninu
Að sögn Lýðs Skúlasonar, sviðsstjóra orkusviðs HD, er verkefnið mikilvægt bæði fyrir Dóminíku og fyrir útflutning íslenskrar sérþekkingar á sviði jarðhita. „Hlutverk HD í verkefninu er að leggja til sérfræðiþekkingu sem styður við faglega gangsetningu og áreiðanlegan rekstur virkjunarinnar“, segir Lýður.
HD ehf. býr yfir víðtækri reynslu af gangsetningu og rekstri jarðhitavirkjana og nýtir í verkefninu þá þekkingu og reynslu sem byggst hefur upp á Íslandi á sviði jarðhita. Með þátttöku sinni í verkefninu styður HD ehf. við orkuskipti á Dóminíku og uppbyggingu áreiðanlegrar og sjálfbærrar orkuframleiðslu í Karíbahafi.
Lýður Skúlason, sviðsstjóri orkusviðs HD: „Hlutverk HD í verkefninu er að leggja til sérfræðiþekkingu sem styður við faglega gangsetningu og áreiðanlegan rekstur virkjunarinnar.“